Naviator-perla seld á 300 þúsund

Dísella Lárusdóttir tekur þátt í Navia verkefninu fyrir hönd Íslands. Á þriðjudag fengust 300 þúsund krónur í Navia-sjóðinn þegar perla var boðin upp.

„Við vorum ekki búin að reikna með neinu og vonuðum í raun ekki annað en að hún færi á sómasamlegu verði," segir Bjarney Lúðvíksdóttir um perlu sem var boðin upp á fundi Naviator, félags áhugafólks um norræna þróunarsamvinnu, og seldist fyrir 300 þúsund krónur.

Perlan var gjöf til Naviator frá skartgripahönnuðinum Gabriele Weinemann sem varð fyrst kvenna til þess að fá aðgang að perluköfurum á Tahítí. Síðan hefur hún sérhæft sig í að „græða" perlur en Gabriele var meðal fyrirlesara á fundinum. „Hún tekur perlur sem eru annað hvort ekki alveg hringlaga eða með „sárum" í eins og hún kallar það," segir Bjarney.

„Í flestum tilfellum er þessum perlum fleygt en Gabriele fyllir upp í sárin með eðalsteinum, gulli og fleiru. Þannig skapar hún einstök listaverk og verðmæti úr því sem aðrir töldu einskis virði. Auk þess skapar hún atvinnu og leggur til fjármuni í hina og þessa sjóði. Perlan sem var boðin upp var eins og sköpuð fyrir Naviator, björt og með grænan stein í sárinu - eins og norðurljós."

Hún segir það hafa komið sér á óvart að fleiri karlmenn en konur hafi boðið í gripinn. Hæstbjóðandi var Aðalsteinn Bjarnason hjá Fallorku ehf. sem bauð 100 þúsund krónum betur en næsti maður. „Þessi upphæð fer í Navia sjóðinn sem Naviator heldur utan um," segir Bjarney en eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu er Navia samnorrænt verkefni sem ætlað er að hjálpa þeim sem minna mega sín í heiminum, meðal annars með framleiðslu sjónvarps-þátta og útgáfu tónlistar með þátttöku norrænna söngkvenna. Dísella Lárusdóttir tekur þátt í verkefninu fyrir hönd Íslands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband