21.11.2007 | 16:35
Dennis Quaid
Nýfæddir tvíburar Dennis Quaid alvarlega veikir
Þrettán daga gamlir tvíburar Dennis Quaid liggja alvarlega veikir á Cedars-Sinai sjúkrahúsinu í Los Angeles. Tvíburarnir, Thomas Boone og Zoe Grace, voru fluttir á bráðadeild eftir að þeim var fyrir fyrir slysni gefinn of stór skammtur af blóðþynningarlyfinu heparin á sunnudag.
Talskona Quaid og eiginkonu hans, Kimberly, sagði í gær að þau væru þakklát fyrir allan þeim stuðning sem þeim hefði verið sýndur, en báðu um leið um frið til að takast á við áfallið.
Sjúkrahúsið staðfesti í gær að mistök hefðu átt sér stað. Lyfið er meðal annars notað til að hreinsa út æðaleggi. Í stað 10 eininga lausnar sem átti að gefa sjúklingum sem voru með legg í æð fengu þeir tíu þúsund eininga lausn. Heimildamenn TMZ síðunnar segja að ástæðan sé sú að lyfið hafi ekki verið geymt á réttan hátt, og hjúkrunarfræðingur því gripið vitlausan skammt fyrir slysni.
Í yfirlýsingu frá Cedars-Sinai sagði að umsvifalaust hefðu verið teknar blóðprufur af öllum sem fengu of stóran skammt. Þrír af þeim sjö sem fengu of stóran skammt sýndu merki um að blóð þeirra væri með skerta storknunarhæfni. Einum sjúklinganna batnaði án aðstoðar, en tveir - tvíburarnir litlu - þurftu að fá mótlyf.
Staðgöngumóðir gekk með tvíburana fyrir parið, sem eru líffræðilegir foreldrar þeirra. Quaid á fyrir fimmtán ára son með fyrrverandi eiginkonu sinni, Meg Ryan.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.